top of page
Search

Yfirlýsing frá Smárakirkju vegna umfjöllunar Kompás.

Yfirlýsing frá Smárakirkju vegna umfjöllunar Kompás

Vegna umfjöllunar Kompás á Stöð 2 í vikunni vill stjórn Smárakirkju koma eftirfarandi á framfæri.


Við fordæmum allt ofbeldi og stöndum fyrir kærleika og virðingu gagnvart öllum einstaklingum samfélagsins. Stétt, staða, litarháttur, aldur, kyn eða kynhneigð breyta þar engu um.

Í fyrrnefndum þætti steig Steinunn Anna Radha fram og sagði sögu sína. Slíkar frásagnir ber að taka alvarlega og við hörmum mjög upplifun Steinunnar af veru hennar í unglingastarfi kirkjunnar. Það er jafnframt von okkar að hún fái alla þá aðstoð og bata sem hún þarf á að halda.

Í kjölfar þáttarins er rétt að koma nokkrum staðreyndum á framfæri.


Unglingaleiðtogi sem vísað er í umfjöllun sinnti störfum hjá kirkjunni í um þrjá mánuði. Honum var vísað úr þjónustu fyrir gamaldags og úreltra viðhorfa og óeðlilegra stjórnunarhátta.

Kynferðisbrot þess einstaklings gagnvart Steinunni átti sér stað mánuðum eftir að hann hætti sem unglingleiðtogi. Í kjölfar þess setti Steinunn sig í samband við stjórn kirkjunnar í lok árs 2015 og upplýsti okkur um samskipti sín við umræddan mann. Kirkjan studdi við hana með ráðum og dáð þar sem hún var hvött til þess að leita réttar síns og aðstoðar. Við kölluðum til þverkirkjulegt fagráð og fórum í einu og öllu eftir þeirra ráðleggingum. Formaður stjórnar Smárakirkju bar að eigin frumkvæði vitni fyrir dómi um hvar kynni þeirra hófust og dró engan fjöður yfir þann aðstöðumun sem var á milli þeirra við upphaf kynna. Þessar upplýsingar má nálgast í dómskjölum málsins.


Það er ekki hægt að skilgreina Smárakirkju sem sértrúarsöfnuð í samhengi við öfgafull dæmi af bandarískum ofbeldishreyfingum. Smárakirkja er íslensk fríkirkja og tilheyrir frjálsum kirkjum sem telja um 700 milljónir manna um heim allan. Samkomur kirkjunnar eru sýndar á netinu og þar má nálgast þann boðskap sem kirkjan hefur fram að færa.


Þá er rétt að taka fram að viðhorf í kristnum kirkjum hafa tekið stakkaskiptum síðustu árin sem er vel og löngu orðið tímabært. Með nýjum leiðtogum koma nýjar áherslur og segja má að ákveðin kynslóðaskipti hafi átt sér stað í fríkirkjum hér á landi á liðnum árum. Við höfum lagt kapp okkar í að eyða út mismunun í kirkjulegu starfi enda hefur oft hallað á hlut bæði kvenna og samkynhneigðra. Það er alveg ljóst að enn er hægt að bæta um betur.


Virðingarfyllst, Stjórn Smárakirkju

56 views
bottom of page