top of page

1. kafli. Heiti safnaðarins, heimili og hlutverk.

1. gr. Söfnuðurinn heitir Smárakirkja. Heimili hans er að Sporhömrum 3, 110 Reykjavík. Hann hefur varnarþing í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk safnaðarins er:

1. Að boða friðþægingarverk Drottins Jesú Krists, þ.e. að Kristur hafi með dauða sínum friðþægt fyrir syndir allra manna og að endurlausnin sé veitt hverjum þeim sem trúir.
2. Að boða helgun til orðs og æðis og andlegan vöxt til hans sem er höfuðið, Kristur.
3. Að eiga samvinnu við þá sem vilja vinna að jákvæðum framgangi kristinnar trúar.
4. Að styrkja boðun kristinnar trúar, heima og erlendis.
5. Að fylgja handleiðslu Orðs Guðs og anda Guðs í smáu og stóru.

6. Kaup, sala, rekstur og útleiga á fasteignum, sem er til fjáröflunar fyrir starf safnaðarins.

 

3. gr. Tilgangi sínum hyggst söfnuðurinn ná með því:

Að hafa samkomur, biblíulestra og bænastundir reglulega svo og með barna- og unglingastarfi.

Að boða trú sína og kenningar sem víðast.

Að hafa á boðstólum efni í töluðu og rituðu máli til andlegrar uppbyggingar og fræðslu.

2. kafli Safnaðarmeðlimir

4. gr. Allir sem trúa á friðþægingarverk Drottins Jesú Krists og orð Heilagrar ritningar og eru sammála trúarjátningum og kenningum safnaðarins og vilja í einlægni framganga í helgun og Guðlegri breytni geta orðið meðlimir í söfnuðinum.

5. gr. Þeir sem að mati stjórnar hafa sýnt í verki að þeir vilji tilheyra og starfa í söfnuðinum í anda hans geta óskað eftir að gerast meðlimir. Samþykki stjórnin umsókn skulu þeir rita nöfn sín á þar til gert eyðublað sem sendist Hagstofu Íslands.

6. gr. Stjórn safnaðarins getur vikið manni úr söfnuðinum, ef henni þykir efni standa til. Slíkt má einnig bera upp á safnaðarfundi.

7. gr. Reikningsár safnaðarins er almanaksárið.

 

3. kafli Safnaðarfundir

8. gr. Safnaðarfundur hefur æðsta vald í málefnum safnaðarins. Safnaðarfund skal boða með minnst viku fyrirvara og skal hann auglýstur á samkomum safnaðarins. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum í þeim málum sem borin eru undir fundinn. Aðalsafnaðarfundur skal haldinn í apríl ár hvert, eða eftir ákvörðun stjórnar.

9. gr. Fundarstjóra er falið það hlutverk að sjá til þess að málefnaleg umræða fari fram eingöngu um
boðuð fundarefni og er heimilt að grípa inn í fund ef þurfa þykir.

10. gr. Beiðni um að taka fyrir ákveðin málefni á safnaðarfundi skulu berast stjórn fyrir 20. mars, þ.m.t. beiðni um stjórnarsetu og skal dagskrá kynnt í fundarboði.

11. gr. Sitjandi formaður stjórnar skal setja fund og staðfesta að til hans hafi verið boðað samkvæmt samþykktum safnaðarins.

 

Dagskrá;
1. Fundur settur
2. Tillaga um fundarritara og fundarstjóra borin undir samþykki
3. Skýrsla stjórnar
4. Ársreikningar lagðir fram
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
6. Samþykki ársreikninga
7. Kosning í stjórn
8. Önnur mál ( tillögur og fyrirspurnir )

12. gr. Auka aðalfund skal halda ef stjórn safnaðarins þykir það brýnt eða ef 20% af fullgildum
meðlimum safnaðarins óska eftir því. Boðun fundarins fer fram á sama hátt og boðun
aðalfundar og skal dagskrá kynnt í fundarboði.

13. gr. Stjórn safnaðarins skal kosin á safnaðarfundi í leynilegri kosningu. Rita skal nöfn allt að 5
meðlima safnaðarins á eyðublað. Kosningarétt hafa meðlimir safnaðarins 18 ára og eldi. Kjörgengi hafa þeir sem með nærveru sinni og efnum (tíundum og fórnum) stuðla að vexti og viðgengi safnaðarins og uppfylla einnig önnur skilyrði Ritninganna. Á safnaðarfundum er hægt að biðja stjórnina að gera grein fyrir störfum sínum. Tveir kjörstjórar eru fengnir úr sal af fullgildum meðlimum safnaðarins. Þessir bera ábyrgð á söfnun kjörseðla ásamt talningu atkvæða. Fundarstjóri sker úr um vafaatkvæði.

14. gr. Lögum safnaðarins er aðeins hægt að breyta á safnaðarfundum og þarf til þess 3/4 atkvæða þeirra sem mæta. Lagabreytingatillögur skulu vel auglýstar í fundarboðum.

 

4. kafli Stjórn safnaðarins

15. gr. Stjórn safnaðarins skal skipuð fimm mönnum og einum til vara. Forstöðumanni auk fjögurra annarra, sem valdir eru á safnaðarfundi. Forstöðumann skal kjósa sérstaklega, en stjórnarmenn skal kjósa alla í senn. Varamaður er sá er hlýtur næst flest atkvæði án þess að hljóta kosningu í stjórn. Varamaður tekur sæti ef stjórnarmaður er fjarverandi samfellt í meira en 3 mánuði.

16. gr. Stjórn safnaðarins ræður málefnum hans, með þeim takmörkunum sem lög safnaðarins setja. Stjórnin tekur ákvarðanir um starfsemi safnaðarins og ber ábyrgð á fjárreiðum hans. Hún skuldbindur söfnuðinn gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift forstöðumanns og gjaldkera næg til þess.

17. gr. Skipan stjórnar má endurskoða á safnaðarfundi.

18. gr. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og með eins dag fyrirvara ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef þrír eða fleiri úr stjórninni eru mættir. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn, ræður þá atkvæði forstöðumanns. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

 

5. kafli. Ýmis ákvæði

19. gr.  Komi fram tillaga um að söfnuðinum skuli slitið, skal hún sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga, sbr. 10 gr..

20. gr. Verði söfnuðinum slitið, renna eigur hans til trúboðs og kristniboðs.

bottom of page